Leikstjórinn

María-SigurðardóttirMaría Sigurðardóttir leikstjóri vann fyrst með Leikfélagi Húsavíkur árið 1987 þegar hún leikstýrði sýningunni Ofurefli, þannig að LH og María eiga 30 ára sambandsafmæli í ár. Þetta samband hefur verið með ágætum og aldrei hafa þau þurft að leita til sambandsleiðbeinanda. Fyrir utan Ofurefli hefur sambandið getið af sér Gaukshreiðrið, Tobacco Road og Tveir tvöfaldir.“

María útskrifaðist sem leikkona frá Leiklistarskóla Íslands 1983 og hefur leikið á sviði, í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Hún hefur frá árinu 1989 lagt meiri áherslu á leikstjórn og hefur á ferli sínum leikstýrt yfir 20 sýningum í atvinnuleikhúsum. Þar á meðal Sex í sveit, Fegurðardrottningin frá Línakri, Pétur Pan, Fló á skinni, Fúlar á móti, Öfugu megin uppí og 39 þrep.

Áhugaleiksýningar hennar eru fjölmargar m.a. Honk! (barnasöngleikur), Kardemommubærinn, Grease, Ljón í síðbuxum, Kona og Þrek og tár.

Hún hefur kennt leiktúlkun við Listaháskóla Íslands og haldið fjölmörg leiklistarnámskeið með áhugafólki. María vann mikið með Borgarhólsskóla og Tónlistarskóla Húsavíkur um tíma og setti á svið m.a. Jósep, Bugsy Malone, Honk!, Street Scene og Vesalingarnir. Flestar þessar uppfærslur vann hún með hinni góðu vinkonu sinni Hólmfríði Ben.

María starfaði mest við kvikmyndir á árunum 1990-2013, oftast sem 1. aðstoðarleikstjóri, einnig sem þjálfari og leikstjóri barna, t.d. í Bíódagar, Djöflaeyjan, Tár úr Steini, Stikkfrí og Sumarbörn. María leikstýrði 2 heimildamyndum fyrir börn og einni kvikmynd í fullri lengd, fjölskyldumyndinni Regína.

María var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar árin 2008-2011. Undanfarin ár hefur hún búið í Danmörku og eftir heimkomuna unnið við leiklist í Reykjavík. Aðspurð segir hún það gott og gefandi að koma “heim” til Húsavíkur og viðhalda hinu góða sambandi. Hún á varla orð yfir dugnað og eljusemi LH, og segist vita að framtíð þess sé vörðuð ljósi og lífi.