Leikstjórinn

Jenný Lára Arnórsdóttir

Jenný Lára Arnórsdóttir (Mynd: 640.is)

Jenný Lára útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá The Kogan Academy of the Dramatic Arts í London árið 2012. Hún hefur leikstýrt nokkrum verkum, þar á meðal Hinn fullkomni jafningi, sem var sýndur í Norðurpólnum haustið 2012, Act Alone hátíðinni 2013 og á alþjóðlegri leiklistarhátíð í Dublin vorið 2015. Einnig leikstýrði hún verkinu Einki orð sem frumsýnt var á Tjóðpallinum í Færeyjum og ferðaðist svo um eyjarnar. Hún hefur að auki leikstýrt nokkrum áhugaleiksýningum. Hún er stofnandi og listrænn stjórnandi Uppsprettunnar, sem er einskonar skyndileikhús sem snýst um að kynna nýja höfunda, leikara og leikstjóra og er reglulega sett upp í Tjarnarbíói.

Jenný Lára lék í myndinni Hrútum og hefur einnig leikið í allskonar sýningum og búið sjálf til sýningar upp úr viðtölum við fólk, þ.m.t. Elska sem sýnt var í flestum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslunum, en verkið vann hún úr raunverulegum ástarsögum Þingeyinga. Nú síðast setti hún upp sýningu í rútu, ásamt leikkonunni Aðalbjörgu Árnadóttur, sem keyrði yfir Melrakkasléttu og fjallaði um sögu staðarins og það að ferðast vegna vinnu. Sú sýning var einungis sýnd einu sinni á Sólstöðuhátíð á Melrakkasléttu.

Það er mikill fengur fyrir okkur í Leikfélagi Húsavíkur að fá ungan, nýútskrifaðan og hugmyndaríkan leikstjóra sem Jenný sannarlega er. Nágranni okkar frá Laugum og alin upp í návígi við leikhús og listir.

Það hefur verið mjög gaman að vinna með henni, hún hefur góða innsýn í alla þá fjölmörgu þætti sem þurfa að smella saman við uppsetningu leikrits.  Við þökkum henni fyrir frábært samstarf og óskum henni alls hins besta í framtíðinni.

Stjórn L.H.